Yfirvöld gefa grænt ljós

Leikur Juventus og Inter fór fram fyrir luktum dyrum í …
Leikur Juventus og Inter fór fram fyrir luktum dyrum í mars. AFP

Ítölsk yfirvöld hafa gefið grænt ljós á að deildarkeppnin í knattspyrnu geti hafið göngu sína á ný í landinu. Forráðamenn félaganna í A-deildinni höfðu áður komist að samkomulagi um að klára yfirstandandi tímabil að því gefnu að heilbrigðisyfirvöld myndu blessa þá ákvörðun.

Fulltrúar deildarinnar munu funda í fyrramálið um framhaldið en í tilkynningu frá íþróttaráðherra Ítalíu segir að deildin muni hefjast 20. júní. Þá munu lið spila á þriggja daga fresti svo hægt sé að klára tímabilið sem fyrst en deildin hefur sagt að klára þurfi umferðirnar 12 fyrir 20. ágúst. Liðin byrjuðu að æfa fyrir nokkrum vikum. Birkir Bjarnason spilar með liði Brescia í deildinni.

Emil Hall­freðsson leik­ur með Padova í C-deild­inni en ekki liggur endanlega fyrir hvort haldið verði áfram í neðri deildunum. Hann hef­ur verið orðaður við FH síðustu vik­ur. Þá leik­ur Sveinn Aron Guðjohnsen með Spezia í B-deild­inni. Bæði Padova og Spezia eru í hörðum slag um að kom­ast upp um deild og eru sem stend­ur í um­spils­sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert