Njótið þess að spila fótbolta aftur

Karim Benzema.
Karim Benzema. AFP

Sóknarmaðurinn Karim Benzema er sannfærður um að stórlið Real Madríd muni fara vel af stað þegar spænska deildin í knattspyrnu hefur loks göngu sína á ný 14. júní eftir þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

Real er í öðru sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Barcelona, þegar tólf umferðir eru eftir en mikil óvissa er um hvernig liðin koma undan þessu langa, fordæmalausa hléi. Benzema er hins vegar sannfærður um að Madrídingar komi tvíefldir til leiks þökk sé skilaboðum þjálfara liðsins, Zinedine Zidane.

„Skilaboð Zidane eru; njótið ykkar! Njótið þess að spila fótbolta,“ sagði Frakkinn við sjónvarpsstöð félagsins en Real mætir Eibar á heimavelli 14. júní fyrir luktum dyrum. „Okkur gengur vel, endurhæfingin gengur vel. Við erum alltaf að nota boltann meira og meira, allir eru komnir í gott stand.“

„Það er erfitt að æfa ekkert með bolta í tvo mánuði en við erum byrjaðir að æfa aftur og getum ekki beðið eftir að byrja aftur,“ bætti Benzema við og sagði það auðvitað skrítið að þurfa spila fyrir luktum dyrum. „Það verður öðruvísi, engin spurning. Við þurfum á okkar stuðningsmönnum að halda en nú þurfum við að spila fyrir þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert