Til Chelsea vegna erfiðleika í skóla

Thibaut Courtois er aðalmarkvörður Real Madrid.
Thibaut Courtois er aðalmarkvörður Real Madrid. AFP

Thi­baut Courtois er einn þekktasti markvörður knattspyrnunnar í dag en hann hefur orðið meistari bæði á Spáni og Englandi og var valinn besti markvörðurinn á heimsmeistaramótinu með Belgum fyrir tveimur árum. Ferillinn hefði þó getað endað allt öðruvísi ef Belginn hefði ekki verið trassi í skóla á yngri árum.

Belginn er uppalinn hjá Genk í heimalandinu og vakti athygli nokkurra stórliða þegar hann var í unglingaliði félagsins. Það var hins vegar Hoffenheim í Þýskalandi, sem Gylfi Þór Sigurðsson spilaði með um árabil, sem komst næst því að kaupa markvörðinn, þá aðeins 18 ára, árið 2010.

Lutz Pfannenstiel, sem þá var aðalnjósnari Hoffenheim, segir viðræður við Genk og leikmanninn sjálfan hafa verið komnar langt á leið en það var eitt vandamál. Courtois gekk illa í námi; það var alls ekki víst að hann myndi ná að útskrifast úr menntaskóla það vorið og foreldrar hans höfðu sett honum það skilyrði að ljúka honum áður en hann fengi að reyna fyrir sér í atvinnumennsku í fótbolta.

Hoffenheim, sem þá var um miðja efstu deild í þýska boltanum, dró sig að lokum úr viðræðunum. „Drengurinn var í vandræðum með skólann og við hættum að lokum við,“ sagði Pfannenstiel við DAZN Germany. Ári síðar var Belginn ungi útskrifaður og stórlið Chelsea á Englandi festi kaup á honum. Síðan þá hefur hann unnið fjölda titla með Atlético Madríd, Chelsea og Real Madríd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert