Bikarmeistarar eftir sigur í vítakeppni

Wolfsburg vann tvöfalt í ár, fjórða árið í röð.
Wolfsburg vann tvöfalt í ár, fjórða árið í röð. Ljósmynd/Wolfsburg

Wolfsburg, liðið sem Sara Björk Gunnarsdóttir yfirgaf í vikunni, tryggði sér bikarmeistaratitilinn í þýskalandi með sigri á Essen í vítakeppni í bikarúrslitum í dag. 

Sara gekk í raðir Evrópumeistara Lyon á miðvikudaginn var, en hún lék með Wolfsburg á leiktíðinni, m.a. í bikarnum, og átti því sinn þátt í bikartitlinum. 

Lea Schüller kom Essen óvænt yfir strax á fyrstu mínútu en Pernille Harder jafnaði á elleftu mínútu. Essen komst aftur yfir á 18. mínútu með marki Marina Hegering og var staðan í leikhléi óvænt 2:1 fyrir Essen. 

Anna Blässe jafnaði fyrir Wolfsburg á 70. mínútu og Dominique Bloodworth kom Þýskalandsmeisturunum yfir á 86. mínútu. Virtist allt stefna í 3:2-sigur Wolfsburg en Irini Ioannidou jafnaði í 3:3 með marki í uppbótartíma og því varð að framlengja. 

Ekkert mark var skorað í framlengingunni og réðust úrslitin því í vítakeppni. Wolfsburg skoraði úr fjórum af fimm spyrnum sínum á meðan Essen skoraði úr tveimur en brenndi af tveimur. 

Hefur Wolfsburg unnið þýska meistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn fjögur ár í röð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert