Juventus með pálmann í höndunum

Cristiano Ronaldo skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu.
Cristiano Ronaldo skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu. AFP

Juventus er með pálmann í höndunum í ítölsku A-deildinni í fótbolta eftir 4:1-sigur á grönnunum í Torino á heimavelli í dag. Lazio, helsti andstæðingur Juventus í toppbaráttunni, fékk skell á móti AC Mílan í kvöld. 

Markvörðurinn Gianluigi Buffon hjá Juventus setti nýtt met er hann lék leik númer 648 í deildinni. Átti Paolo Maldini áður metið en hann lék á sínum tíma 647 leiki í ítölsku A-deildinni. 

Paulo Dybala kom Juventus á bragðið strax á þriðju mínútu er hann dansaði með boltann inn í teiginn og skaut í varnarmann og í netið. Juan Cuadrado bætti við öðru markinu á 29. mínútu en það var keimlíkt fyrsta markinu. 

Andrea Belotti lagaði stöðuna fyrir Torino með marki úr víti í uppbótartíma í fyrri hálfleik og var staðan í leikhlé 2:1. 

Juventus náði hinsvegar aftur tveggja marka forystu á 61. mínútu. Cristiano Ronaldo tók þá aukaspyrnu af rúmlega 20 metra færi og skilaði boltanum upp í samskeytin. Markið var það fyrsta sem Ronaldo skorar úr aukaspyrnu fyrir Juventus. Varð Koffi Djidji fyrir því óláni að skora sjálfsmark fyrir Torino á 87. mínútu og gulltryggði hann 4:1-sigur Juventus í leiðinni. 

Skellur hjá Lazio

Tyrkneski landsliðsmaðurinn Hakan Calhanoglu kom AC Mílan yfir á útivelli gegn Lazio með marki á 23. mínútu. Skaut hann boltanum í varnarmann utan teigs og þaðan flaug hann yfir Thomas Strakosha í markið Lazio og í netið.

Zlatan Ibrahimovic skoraði annað mark AC Milan gegn Lazio.
Zlatan Ibrahimovic skoraði annað mark AC Milan gegn Lazio. AFP

Zlatan Ibrahimovi tvöfaldaði forskotið með marki úr víti á 34. mínútu og Ante Rebic gulltryggði 3:0-sigur á 59. mínútu er hann kláraði einn gegn Strakosha eftir sendingu Giacomo Bonaventura og þar við sat. 

Juventus er með 75 stig á toppi deildarinnar, sjö stigum meira en Lazio þegar átta umfeðrir eru eftir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert