Neitaði að spila með Real Madrid

James Rodríguez í leik með Real Madrid í júní.
James Rodríguez í leik með Real Madrid í júní. AFP

James Rodríguez, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, var ekki í leikmannahópi liðsins sem vann 1:0-útisigur gegn Athletic Bilbao í spænsku 1. deildinni í gær. Leiknum lauk með 1:0-sigri Real Madrid sem hefur nú 4 stiga forskot á Barcelona á toppi deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu.

„James neitaði að spila og bað um að vera utan hóps gegn Bilbao,“ sagði Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri liðsins, í samtali við spænska fjölmiðla eftir leikinn. „Það eru ýmsar ástæður sem búa að baki þessari ákvörðun hans en þær eru á milli mín og leikmannsins. Ég mun ekki tjá mig meira um þetta mál,“ bætti Zidane við.

Rodríguez er einungis 28 ára gamall en ferill hans hefur verið á hraðri niðurleið frá því hann gekk til liðs við Real Madrid frá Monaco eftir HM 2014. Hann hefur einungis byrjað fimm leiki í spænsku 1. deildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað eitt mark og lagt upp eitt mark en hann mun að öllum líkindum yfirgefa félagið í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert