Naumt hjá Barcelona sem felldi granna sína

Luis Suárez fagnar sigurmarki Barcelona með liðsfélögum sínum.
Luis Suárez fagnar sigurmarki Barcelona með liðsfélögum sínum. AFP

Barcelona heldur enn í veika von um spænska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir nauman sigur á Espanyol í grannaslag í spænsku 1. deildinni á Camp Nou í kvöld.

Luis Suárez skoraði sigurmarkið á 56. mínútu, 1:0, en á næstu fimm mínútum þar á undan fengu bæði Ansu Fati hjá Barcelona og Pol Lozano hjá Espanyol að líta rauða spjaldið.

Barcelona er með 76 stig og á þrjá leiki eftir en Real Madrid er með pálmann í höndunum, 77 stig og fjóra leiki eftir. Real Madrid nægir að liðin endi jöfn að stigum til að verða meistari og nægir því að fá átta  stig úr sínum fjórum leikjum.

Espanyol er hinsvegar fallið eftir ósigurinn í kvöld en liðið situr á botninum með 24 stig og er ellefu stigum frá því að komast úr fallsæti þegar það á aðeins þrjá leiki eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert