Skarð fyrir skildi hjá Barcelona

Antoine Griezmann
Antoine Griezmann AFP

Titilvonir Barcelona eru orðnar enn veikari eftir að spænska knattspyrnufélagið missti lykilmanninn Antoine Griezmann í meiðsli en hann mun ekki taka þátt í síðustu tveimur leikjum liðsins.

Barcelona er í öðru sæti spænsku efstu deildarinnar með 79 stig, stigi á eftir toppliði Real Madríd sem á að auki leik til góða. Frakkinn var í byrjunarliði Barcelona sem vann 1:0-sigur á Real Valladolid í gær en þurfti að fara af velli í hálfleik.

Hann gekkst í kjölfarið undir læknisskoðun og hefur félagið nú staðfest meiðsli í hægri fæti sem munu halda framherjanum frá góðu gamni í nokkrar vikur. Börsungar eru þó vongóðir um að hann verði klár í slaginn þegar Meistaradeild Evrópu hefst aftur í ágúst en liðið mætir þar Napoli frá Ítalíu í 16-liða úrslitunum.

Griezmann gekk til liðs við Barcelona síðasta sumar fyrir 120 milljónir evra en hann hefur skorað 15 mörk í 46 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert