Ekki á leið til Spánar

Neymar gekk til liðs við PSG frá Barcelona sumarið 2017.
Neymar gekk til liðs við PSG frá Barcelona sumarið 2017. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar mun ekki ganga til liðs við Barcelona í sumar en þetta staðfesti Josep Maria Bartomeum forseti Barcelona, í samtali við TV3 á Spáni á dögunum. Neymar hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til Spánar, undanfarna mánuði, en hann er samningsbundinn PSG í Frakklandi.

Neymar gekk til liðs við PSG sumarið 2017 fyrir tæplega 200 milljónir punda og er dýrasti knattspyrnumaður heims. Hann hefur hins vegar ekki fundið sig nægilega vel í Frakklandi og er sagður vilja komast aftur til Spánar. Börsungar voru sagðir vera að undirbúa tilboð í leikmanninn fyrr í vetur en það hefur nú breyst.

Spænska félagið er í miklum fjárhagsvandræðum vegna kórónuveirufaraldursins og hefur þurft að lækka laun hjá flestum starfsmönnum félagsins. Þá eru margir leikmenn liðsins til sölu en félagið hefur eytt háum upphæðum í leikmenn sem hafa ekki staðið undir væntingum á undanförnum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert