Grindvíkingurinn í liði umferðarinnar í Noregi

Ingibjörg Sigurðardóttir fer vel af stað í Noregi.
Ingibjörg Sigurðardóttir fer vel af stað í Noregi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Ingibjörg Sigurðardóttir og liðsfélagar hennar í norska úrvalsdeildarliðinu Vålerenga unnu 2:0-heimasigur gegn Röa í 2. umferð deildarinnar á föstudaginn síðasta. Ingibjörg lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Vålerenga en þetta var fyrsti sigur liðsins á tímabilinu.

Ingibjörg kórónaði góðan leik með því að leggja upp annað mark Vålerenga í leiknum en frammistaða hennar gegn Röa skilaði henni sæti í liði umferðarinnar hjá heimasíðu úrvalsdeildarinnar. Þá var liðsfélagi Ingibjargar, Dejana Stefanovic, einnig valin í lið umferðarinnar en Rosenborg átti flesta leikmenn í liðinu eða fjóra.

Ingibjörg gekk til liðs við norska félagið frá Djurgården í Svíþjóð fyrir tímabilið en hún lék í Svíþjóð í tvö ár áður en hún skipti yfir til Noregs. Ingibjörg er uppalin hjá Grindavík en gekk til liðs við Breiðablik árið 2012 og lék með liðinu í fimm ár áður en hún hélt út í atvinnumennsku árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert