Gerrard kaupir fyrrverandi leikmann Víkings

Kemar Roofe er orðinn leikmaður Rangers í Skotlandi.
Kemar Roofe er orðinn leikmaður Rangers í Skotlandi. Ljósmynd/Rangers

Skoska knattspyrnufélagið Rangers hefur gengið frá kaupum á enska framherjanum Kemar Roofe frá Anderlecht í Belgíu. Gerir Roofe fjögurra ára samning við félagið. 

Roofe skoraði sjö mörk í 16 leikjum með Anderlecht á síðustu leiktíð, en hann var að glíma við erfið meiðsli stærstan hluta tímabilsins. Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool til margra ára, er knattspyrnustjóri Rangers. 

Sóknarmaðurinn lék þrjá leiki með Víkingi Reykjavík árið 2011 að láni frá West Bromwich Albion. Lék Roofe tvo leiki í efstu deild og einn í bikar. Kom eina markið hér á landi gegn KV í 2:0-sigri Víkings á gervigrasinu í Vesturbænum. 

Roofe lék við góðan orðstír hjá Leeds í þrjú ár, áður en leiðin lá til Belgíu og skoraði 32 mörk í öllum keppnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert