Goðsögnin tekur við Juventus

Andrea Pirlo var afar sigursæll leikmaður.
Andrea Pirlo var afar sigursæll leikmaður. AFP

Andrea Pirlo hefur tekið við knattspyrnustjórastöðu Juventus eftir að Maurizio Sarri var rekinn fyrr í dag. Pir­lo, sem er 41 árs, lagði skóna á hill­una árið 2017 eft­ir magnaðan fer­il. 

Brottrekstur Sarris var gerður opinber í dag en Juventus féll úr keppni í Meist­ara­deild Evr­ópu í gærkvöldi í 16-liða úr­slit­um. Ju­vent­us vann 2:1 en féll úr keppni þar sem Lyon skoraði mark á úti­velli og hafði unnið heima­leik­inn 1:0. Sarri var því snarlega rekinn úr starfi þrátt fyrir að hafa gert liðið að ítölskum meisturum níunda árið í röð en hann tók við liðinu á síðasta ári.

Pirlo var ráðinn á dögunum til Juventus til að gegna starfi þjálfara hjá U23 ára liði félagsins en þurfti ekki að bíða lengi eftir stöðuhækkun. Hann lék 116 lands­leiki fyr­ir Ítal­íu og varð heims­meist­ari árið 2006. Hann varð ít­alsk­ur meist­ari fjór­um sinn­um með Ju­vent­us. Þá varð hann Evr­ópu­meist­ari í tvígang með AC Mil­an á sín­um tíma.

Miðjumaður­inn yf­ir­gaf Ju­vent­us árið 2015 og lék síðustu ár fer­ils­ins í Banda­ríkj­un­um með New York City. Síðustu ár hef­ur Pir­lo öðlast þjálf­ara­rétt­indi frá FIFA og hafnað nokkr­um starfstilboðum að sögn blaðamanns­ins Zekes Tells.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert