Inter fyrst í undanúrslit

Romelu Lukaku skoraði annað mark Inter.
Romelu Lukaku skoraði annað mark Inter. AFP

Ítalska liðið Inter Mílanó varð í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir 2:1-sigur á Bayer Leverkusen frá Þýskalandi í Düsseldorf.

Fyrri hálfleikurinn var ansi fjörugur en Nicoló Barella kom Inter yfir á 15. mínútu og sex mínútum síðar bætti Romelu Lukaku við öðru marki Inter. Leverkusen gafst ekki upp og Kai Havertz minnkaði muninn á 24. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki. 

Í tvígang dæmdi Carllos Cerro spænskur dómari leiksins víti á Leverkusen en í bæði skiptin var dómurinn dreginn til baka eftir skoðun hjá myndbandsdómurum. 

Inter mætir annaðhvort Shakhtar Donetsk frá Úkraínu eða Basel frá Sviss í undanúrslitum 17. ágúst næstkomandi. 

Vegna kórónuveirunnar eru allir leikir frá átta liða úrslitunum spilaðir í Þýskalandi og er aðeins einn leikur í átta liða úrslitum og undanúrslitum í stað tveggja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert