Landsliðsmaður í mikið Íslendingafélag

Jón Guðni Fjóluson er orðinn leikmaður Brann.
Jón Guðni Fjóluson er orðinn leikmaður Brann. Ljósmynd/Brann

Jón Guðni Fjóluson landsliðsmaður í knattspyrnu gerði í dag samning sem gildir út leiktíðina við norska úrvalsdeildarfélagið Brann. Hefur Jón Guðni verið án félags síðustu vikur eftir að hann rifti samningi sínum við Krasnodar í Rússlandi. 

„Það er æðislegt að vera hérna og ég hlakka til að komast á völlinn og hitta liðsfélaga mína,“ er haft eftir Jóni Guðna á heimasíðu félagsins. Gæti hann spilað sinn fyrsta leik með Brann á útivelli gegn Kristiansund í norsku úrvalsdeildinni á sunnudag. Er liðið í tíunda sæti deildarinnar af sextán liðum. 

Ólafur Örn Bjarnason, Ármann Smári Björnsson, Gylfi Einarsson, Bjarki Gunnlaugsson, Ágúst Gylfason, Hannes Þór Halldórsson, Sævar Jónsson, Viðar Ari Jónsson, Birkir Kristinsson, Birkir Már Sævarsson, Bjarni Sigurðsson, Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Þórðarson og Stefán Þórðarson hafa allir leikið með liðinu. Þá hefur Teitur Þórðarson í tvígang verið þjálfari liðsins og Magni Fannberg þróunarstjóri. 

Jón Guðni lék með Fram hér á landi áður en hann fór í atvinnumennsku til Beerschot, Sundsvall, Norrköping og loks Krasnodar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert