Sakaður um að svindla í ítölskuprófi

Luis Suárez á enga framtíð hjá Barcelona.
Luis Suárez á enga framtíð hjá Barcelona. AFP

Luis Suárez, framherji knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni, er í vandræðum þessa dagana en ítölsk yfirvöld rannsaka nú hvort Úrúgvæinn hafi gerst sekur um að svindla í ítölskuprófi í Perugia í síðustu viku.

Suárez, sem er 33 ára gamall, er samningsbundinn Barcelona til sumarsins 2021 en Ronald Koeman, nýráðinn stjóri Barcelona, hefur lítinn sem engan áhuga á því að nota framherjann og hann er því til sölu.

Framherjinn var sterklega orðaður við Juventus í allt sumar en Juventus fékk Bandaríkjamanninn Weston McKennie til liðs við sig fyrr í sumar. Aðeins tveir leikmenn, sem eru ekki með evrópskt vegabréf, mega vera hluti af leikmannahópum á Ítalíu og því gat félagið ekki fengið atvinnuleyfi fyrir Suárez.

Hann ákvað því að sækja um ítalskt vegabréf þar sem eiginkona hans á ættir að rekja til Ítalíu. Le Repubblica greinir frá því að Suárez hafi vitað svörin, áður en hann fór í prófið, og að prófdómarar og aðrir hafi tekið þátt í að aðstoða Suárez með að komast í gegnum prófið.

Málið er litið alvarlegum augum á Ítalíu og gæti framherjinn átt yfir höfði sér málsókn og háa fjársekt, fari svo að hann verður fundinn sekur um að svindla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert