Skaut fast á Barcelona við brotthvarf Suárez

Lionel Messi og Luis Suárez eru bestu vinir utan vallar.
Lionel Messi og Luis Suárez eru bestu vinir utan vallar. AFP

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Luis Suárez er að ganga til liðs við Atlético Madrid frá Barcelona en þetta staðfesti fyrrnefnda félagið á Twitter-síðu sinni í vikunni.

Ronald Koeman, nýráðinn knattspyrnustjóri Barcelona, hefur lítinn áhuga á því að nota Suárez og sendi honum skilaboð þess efnis fyrr í sumar að starfskrafta hans hjá félaginu væri ekki lengur óskað.

Suárez kvaddi liðsfélaga sína og stuðningsmenn Barcelona í gær en hann og Lioenl Messi, fyrirliði Barcelona, eru besti vinir utan vallar og Messi var ósáttur með brotthvarf framherjans.

„Það verður virkilega erfitt að hitta þig ekki og æfa með þér á hverjum degi,“ sagði Messi í kveðju sinni til Suárez.

„Þú hefðir átt að fá þá kveðjustund sem þú áttir virkilega skilið fyrir allt sem þú hefur gert fyrir þetta félag.

Í staðinn þá er þér sparkað í burtu en staðreyndin er sú að það er ekkert sem kemur mér á óvart lengur,“ bætti Messi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert