Ein sú besta dæmir leikinn gegn Svíþjóð

Stephanie Frappart gefur Daniel Congre gult spjald í leik Montpellier …
Stephanie Frappart gefur Daniel Congre gult spjald í leik Montpellier og Angers í frönsku deildinni í vetur. AFP

Stép­hanie Frappart frá Frakklandi mun dæma stórleik Íslands og Svíþjóðar í undankeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í Gautaborg á þriðjudaginn. Frappart þykir einn besti kvendómari heims.

Leikurinn gegn Svíþjóð er hreinn úrslitaleikur um toppsætið í riðlinum sem gefur þátttökurétt á Evrópumótinu 2022. Það er því mikið undir og þessi dómaraútnefning ber þess merki.

Frappart hefur nokkrum sinnum brotið blað í sögu dómara innan knattspyrnunnar. Hún dæmdi fyrst kvenna í efstu deild karla í Frakklandi og var sömuleiðis sú fyrsta til að dæma leikinn um stórbikar Evrópu þegar Chelsea og Liverpool mættust í Istanbúl í fyrra. Þá dæmdi hún úrslitaleik HM kvenna á síðasta ári milli Bandaríkjanna og Hollands.

Frappart dæmdi ennfremur leik Leicester City og Zorya Luhansk í Evrópudeild karla síðasta fimmtudag og varð þar með fyrst kvenna til að dæma leik í riðlakeppninni. Áður hefur hún dæmt í undankeppni Evrópudeildarinnnar og m.a. viðureign Möltu og Lettlands í Þjóðadeild UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert