Landsliðsmarkvörðurinn og norskur samherji sendir heim

Gianluigi Donnarumma ásamt Giorgio Chiellini í landsleik Ítalíu og Hollands …
Gianluigi Donnarumma ásamt Giorgio Chiellini í landsleik Ítalíu og Hollands fyrr í þessum mánuði. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið AC Milan tilkynnti fyrir stundu að tveir leikmanna liðsins hefðu greinst með kórónuveiruna.

Það eru ítalski landsliðsmarkvörðurinn Gianluigi Donnarumma og Norðmaðurinn Jens Petter Hauge, en áður höfðu þrír í leikmannahópi liðsins greinst með veiruna.

Donnarumma og Hauge hafa verið sendir heim til sín í einangrun og verða ekki með liðinu í kvöld þegar það tekur á móti Roma í A-deildinni. AC Milan hefur byrjað tímabilið mjög vel og unnið fjóra fyrstu leiki sína. Donnarumma hefur varið markið í öllum leikjunum en norski miðjumaðurinn Hauge, sem er 21 árs gamall, hefur komið við sögu í einum leik.

Í tilkynningu frá félaginu segir að leikmennirnir séu við góða heilsu, án einkenna, og allir aðrir leikmenn liðsins hafi verið skimaðir í gær, samkvæmt reglum, og enginn þeirra hafi reynst smitaður.

Ciprian Tatarusanu, landsliðsmarkvörður Rúmena sem lék gegn Íslandi á Laugardalsvellinum 8. október, fær væntanlega sitt fyrsta tækifæri með AC Milan í deildinni í kvöld. Hann kom til félagsins frá Lyon í Frakklandi í sumar og hefur verið varamarkvörður fyrir Donnarumma í fyrstu fjórum leikjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert