Jota og Salah afgreiddu Midtjylland

Gamli Stjörnumaðurinn Alexander Scholz sparkar Diogo Jota niður í kvöld.
Gamli Stjörnumaðurinn Alexander Scholz sparkar Diogo Jota niður í kvöld. AFP

Liverpool sigraði Midtjylland 2:0 í 2. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í D-riðli í kvöld með mörkum frá Diogo Jota og Mohamed Salah. Sigurinn var síst auðveldur fyrir Englandsmeistarana og hefðu liðsmenn Midtjylland hæglega getað skorað á mikilvægum augnablikum í leiknum en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Strax á þriðju mínútu leiksins slapp Andreas Dreyer inn fyrir vörn Liverpool og var kominn einn á móti Alisson, markverði Liverpool. Dreyer var of lengi að fóta sig og varði Alisson vel frá honum.

Í fyrri hálfleiknum voru leikmenn Midtjylland afar þéttir fyrir og gáfu fá sem engin færi á sér. Leikmönnum Liverpool gekk illa að fóta sig fram á við og kom fyrsta skot Liverpool í leiknum ekki fyrr en á 38. mínútu leiksins þegar Jota skaut langt framhjá eftir hornspyrnu. Liverpool fékk engin alvöru færi í fyrri hálfleiknum og eftir að hafa einungis skapað sér örfá hálffæri var staðan 0:0 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór nokkuð hægt af stað og gekk Liverpool áfram erfiðlega að skapa sér færi.

Til tíðinda dró þó á 55. mínútu. Þá tók Alexander-Arnold snarpan þríhyrning við Shaqiri og var þá skyndilega kominn í álitlega stöðu í teig Midtjylland. Alexander-Arnold renndi boltanum þvert fyrir markið og þar var Jota einn á auðum sjó fyrir opnu marki og skoraði auðveldlega. 1:0 og það í fyrsta góða færi Liverpool í leiknum.

Eftir markið róaðist leikurinn nokkuð og virtist Liverpool sátt við sinn hlut. Um miðjan síðari hálfleikinn fóru þó gestirnir að færa sig upp á skaftið og fékk Evander, sem var þá nýkominn inn á sem varamaður, dauðafæri á 77. mínútu. Hann fékk þá boltann í miðjum teignum, sneri á Gomez og skaut boltanum naumlega framhjá stönginni.

Á 88. mínútu leiksins fékk Firmino tækifæri til þess að klára leikinn þegar hann fékk frábæra sendingu frá Alexander-Arnold í teignum en skaut yfir í dauðafæri.

Midtjylland rauk strax í sókn þar sem Dreyer var skyndilega kominn inn á teiginn. Þar lék hann auðveldlega á Gomez og vippaði yfir Alisson en boltinn fór í hliðarnetið.

Skömmu síðar, á 91. mínútu leiksins, slapp Salah í gegn eftir frábæra stungusendingu Alexander-Arnold. Paulinho elti Salah uppi, steig á fótinn á honum og víti því dæmt. Salah fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 2:0. Salah hafði komið inn á á 60. mínútu leiksins.

Liverpool fer með sigrinum á topp D-riðils með fullt hús stiga, 6 stig eftir tvær umferðir, og ekkert mark fengið á sig. Midtjylland er hins vegar á botninum með 0 stig og 0 mörk skoruð. Leikmenn Midtjylland naga sig eflaust í handarbökin því þeir fengu þrjú mjög góð tækifæri til þess að skora í kvöld.

Mikael Neville Anderson, íslenski landsliðsmaðurinn í röðum Midtjylland, kom inn á á 65. mínútu leiksins. Alexander Scholz, sem spilaði frábærlega með Stjörnunni í Pepsi-deildinni árið 2012, spilaði allan leikinn fyrir Midtjylland og stóð sig vel.

Jafntefli á Ítalíu

Í hinum leik D-riðils mættust Atalanta og Ajax í hörkuleik sem lyktaði með 2:2 jafntefli.

Atalanta og Ajax skildu jöfn.
Atalanta og Ajax skildu jöfn. AFP

Á 30. mínútu leiksins fékk Ajax vítaspyrnu eftir að Robin Gosens braut á Lassina Traoré. Dusan Tadic steig á punktinn og kom Ajax í 0:1.

Lassina Traoré, framherjinn ungi frá Búrkína Fasó, er fullur sjálfstrausts eftir að hafa skorað fimm og lagt upp önnur þrjú í ótrúlegum 0:13 sigri Ajax um helgina gegn Venlo í hollensku deildinni um helgina. Hann hélt uppteknum hætti og tvöfaldaði forystu Ajax á 38. mínútu leiksins. 0:2 í hálfleik og útlitið gott fyrir hollensku meistarana.

Atalanta var þó ekki á því að gefast upp. Á 54. mínútu skoraði Duvan Zapata eftir sendingu frá Alejandro Gomez, staðan orðin 1:2.

Sex mínútum síðar skoraði Zapata aftur, nú eftir undirbúning frá Mario Pasalic og Atalanta skyndilega búið að jafna leikinn.

Eftir þetta fengu bæði lið færi til að gera út um leikinn en niðurstaðan sanngjarnt 2:2 jafntefli.

Að loknum tveimur umferðum er Atalanta í öðru sæti riðilsins með fjögur stig og Ajax í því þriðja með 1 stig.

Liverpool 2:0 Midtjylland opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með 2:0 sigri Liverpool. Midtjylland gerðu sig líklega til að skora nokkrum sinnum en Liverpool hafði að lokum betur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert