Ekki skora veiruna á hólm - þú ert ekki Zlatan

Zlatan Ibrahimovic í leik AC Milan og Roma.
Zlatan Ibrahimovic í leik AC Milan og Roma. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic hefur sent frá sér skýr skilaboð til ítölsku þjóðarinnar vegna kórónuveirufaraldursins sem áfram herjar á hana eins og aðra.

Zlatan hvetur Ítali á Instagram til þess að gæta vel að sóttvörnum, virða fjarlægðarmörk og bera grímur í baráttunni við kórónuveiruna.

Sjálfur fékk hann veiruna fyrr á þessu ári og varð ekki meint af, og kom inn á það í léttum dúr í skilaboðum sínum: „Veiran réðst á mig og ég sigraði. En þú ert ekki Zlatan - ekki skora veiruna á hólm. Vertu skynsamur, virtu allar reglur, og við munum sigra!" sagði Svíinn en margir hafa líka túlkað skilaboð hans  sem skot á Cristiano Ronaldo sem fékk kórónuveiruna í kjölfar þess að hafa gert lítið úr ítölskum sóttvarnareglum.

Zlatan, sem er 39 ára gamall, missti af tveimur leikjum AC Milan vegna veirunnar en hefur verið í miklu stuði með liðinu í A-deildinni og skorað sex mörk í þeim þremur leikjum sem hann hefur spilað. AC Milan er efst í deildinni með 13 stig eftir fimm umferðir og það hefur ekki gerst í áraraðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert