Þriðji Íslendingurinn til Le Havre

Andrea Rán Hauksdóttir í baráttunni með Breiðabliki í sumar.
Andrea Rán Hauksdóttir í baráttunni með Breiðabliki í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir er gengin til liðs við franska 1. deildarfélagið Le Havre á láni frá Breiðabliki.

Það er Vísir.is sem greindi fyrstur miðla frá þessu en Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir eru báðar samningsbundnar Le Havre sem er neðsta sæti deildarinnar, þremur stigum frá öruggu sæti.

Andrea mun snúa aftur til Breiðabliks þegar keppnistímabilið hefst í úrvalsdeild kvenna í kringum 1. maí en hún er samningsbundin liðinu út þetta keppnistímabil.

Breiðablik varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð eftir að keppni á Íslandsmótinu var hætt í október vegna kórónuveirufaraldursins.

Andrea Rán á að baki 122 leiki í efstu deild fyrir Breiðablik þar sem hún hefur skorað 10 mörk. Þá á hún að baki 10 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað tvö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert