Ari náði stórum áfanga í kvöld

Ari Freyr Skúlason er meðal reyndustu knattspyrnumanna Íslands í dag.
Ari Freyr Skúlason er meðal reyndustu knattspyrnumanna Íslands í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ari Freyr Skúlason landsliðsmaður í knattspyrnu náði stórum áfanga á ferlinum í kvöld þegar hann lék með Oostende gegn Club Brugge í belgísku A-deildinni.

Ari, sem er 33 ára gamall, lék þar sinn 400. deildaleik frá árinu 2006 þegar hann lék fyrsta leikinn með Val í íslensku úrvalsdeildinni.

Frá þeim tíma hefur hann leikið 11 leiki á Íslandi, 181 í Svíþjóð með Häcken og Sundsvall, 89 í Danmörku með OB og nú 119 í Belgíu með Oostende og Lokeren.

Af þessum leikjum eru 123 í sænsku B-deildinni en hinir 277 leikirnir eru í efstu deildum Íslands, Svíþjóðar, Danmerkur og Belgíu. 

Ari hefur skorað 53 mörk í þessum 400 leikjum, þar af 30 fyrir Sundsvall, 10 fyrir Lokeren, 7 fyrir OB, 3 fyrir Oostende, 2 fyrir Häcken og eitt fyrir Val.

Oostende tapaði leiknum naumlega á útivelli, 2:1, gegn langefsta liði deildarinnar og Ari spilaði fyrstu 87 mínútur leiksins. Liðið er í sjöunda sæti deildarinnar, sex stigum frá öðru sætinu.

Ari er 27. íslenski knattspyrnumaðurinn frá upphafi sem nær að spila 400 deildaleiki á ferlinum og sá fyrsti frá árinu 2019 sem nær þessum áfanga en á því ári spiluðu þrír Íslendingar sinn 400. deildaleik, Aron Einar Gunnarsson, Bjarni Ólafur Eiríksson og Pálmi Rafn Pálmason.

Af öðrum núverandi leikmönnum er það aðeins Kári Árnason sem hefur náð 400 leikjum, og er jafnframt efstur á lista þeirra sem enn eru að spila með 458 leiki, en leikjahæstur er Arnór Guðjohnsen sem lék 523 leiki. Listann í heild er að finna í bókinni Íslensk knattspyrna 2020.

Þá varð Ari á síðasta ári sjötti Íslendingurinn til að spila 100 leiki í belgísku A-deildinni en á undan honum til að ná því voru Arnar Þór Viðarsson (391), Arnór Guðjohnsen (280), Ásgeir Sigurvinsson (249), Rúnar Kristinsson (192) og Arnar Grétarsson (158). 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert