Eftirsóttur í Tyrklandi

Kolbeinn Sigþórsson er án félags þessa dagana.
Kolbeinn Sigþórsson er án félags þessa dagana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Kolbeinn Sigþórsson er eftirsóttur af félögum í tyrknesku B-deildinni en hann er án félags í dag.

Það er 433.is sem greinir frá þessu en Kolbeinn rifti samningi sínum við sænska úrvalsdeildarfélagið AIK á dögunum og hefur verið án félags síðan.

Þá hefur Kolbeinn einnig verið orðaður við lið í íslensku úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, en 433.is segir að það sé ólíklegt að Kolbeinn leiki hér á landi á komandi tímabili.

Framherjinn hefur verið afar óheppinn með meiðsli undanfarin ár og hefur í raun lítið spilað síðan eftir EM 2016 þar sem hann var í lykilhlutverki með íslenska karlalandsliðinu.

Kolbeinn hefur verið viðloðandi íslenska landsliðshópinn undanfarin ár en lítið fengið að spila. Hann á að baki 60 A-landsleiki og er jafn markahæsti leikmaður landsliðs frá upphafi með 26 mörk líkt og Eiður Smári Guðjohnsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert