Kraftaverk ef Zidane heldur starfinu

Zinedine Zidane gæti misst starfið á næstu dögum.
Zinedine Zidane gæti misst starfið á næstu dögum. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, þykir ansi valtur í sessi þessa dagana eftir að liðið féll úr leik á útivelli gegn C-deildarliði Alcoyano í spænsku bikarkeppninni í gær.

Alcoyano vann 2:1-sigur eftir framlengdan leik eb C-deildarliðinu tókst að jafna metin í 1:1 á 80. mínútu áður en Juanan skoraði sigurmarkið á 115. mínútu framleningarinnar.

Til að toppa niðurlægingu Real Madrid voru leikmenn Alcoyano einum manni færri þegar þeir skoruðu sigurmark leiksins en Ramon Lopez, leikmaður Alcoyano, fékk að líta sitt annað gula spjald á 109. mínútu.

„Það verður að teljast kraftaverk ef Zidane heldur starfinu eftir þessi úrslit,“ segir í umfjöllun spænska miðilsins Marca um leikinn.

Tomas Roncero hjá AS tók í svipaðan streng og kollegar sínir hjá Marca. „Vandræðalegustu úrslit í sögu Real Madrid,“ skrifaði Roncero.

Real Madrid, sem er ríkjandi Spánarmeistari, er í öðru sæti spænsku 1. deildarinnar með 37 stig eftir átján leiki en Atlético Madrid er á toppi deildarinnar með 41 stig eftir sextán leiki.

Zidane hefur verið talsvert gagnrýndur á leiktíðinni en alltaf þegar pressan hefur verið sem mest á honum hefur þjálfaranum tekist að snúa genginu við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert