Byrjunin í Poznan eins fullkomin og mögulegt var

Aron Jóhannsson fer vel af stað í Póllandi.
Aron Jóhannsson fer vel af stað í Póllandi. Ljósmynd/Lech Poznan

Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson fékk sannkallaða draumabyrjun með nýju félagsliði sínu, Lech Poznan í Póllandi.

Framherjinn, sem er þrítugur að aldri, gekk til liðs við pólska félagið hinn 12. febrúar á frjálsri sölu en hann hafði verið án félags síðan samningur hans við sænska úrvalsdeildarfélagið Hammarby rann út fyrir áramót.

Aron lék sinn fyrsta leik um síðustu helgi á heimavelli gegn Slask Wroclaw í deildinni þar sem hann fór beint í byrjunarliðið og skoraði sigurmarkið á 57. mínútu í 1:0-sigri Lech Poznan.

„Fyrstu dagarnir hérna hafa gengið mjög vel fyrir sig og ég er virkilega ánægður með þetta skref til Póllands,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta er risastór klúbbur hérna og var til dæmis í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fyrir áramót. Það er allt til alls hérna sem hefur komið mér skemmtilega á óvart. Umgjörðin hérna er til fyrirmyndar og á pari við það sem maður vandist í Þýskalandi hjá Werder Bremen. Þetta er annar af tveimur stærstu klúbbum Póllands og maður áttar sig kannski betur á því eftir að maður er kominn hingað út.“

Datt inn á hárréttum tíma

Lech Poznan hefur sjö sinnum orðið pólskur meistari, síðast árið 2015, en liðið er sem stendur í ellefta sæti pólsku úrvalsdeildarinnar með 22 stig, 9 stigum frá Evrópusæti. Liðið var án sigurs í átta leikjum þegar það mætti Slask.

„Það er auðvelt að tala um óskabyrjun núna en þetta var fyrsti keppnisleikurinn minn í rúma tvo mánuði. Liðið hefur verið í smá basli á tímabilinu og ekki verið að skora mikið af mörkum þannig að þetta var í raun bara eins fullkomið og það gat orðið. Markmiðin hjá félaginu eru mjög skýr og það er að berjast um alla þá titla sem í boði eru á hverju einasta tímabili. Það er langsótt núna en markmiðið er að reyna að ná Evrópusæti og við höfum enn þá bikarkeppnina til þess og auðvitað deildina líka.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert