„Vilja gefa mér tíma“

Rúnar Már Sigurjónsson í landsleik gegn Belgum.
Rúnar Már Sigurjónsson í landsleik gegn Belgum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru viðbrigði að vera kominn aftur til Evrópu, ef svo má segja, en miðað við byrjunina er gott að vera hérna í Cluj,“ segir Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í fótbolta, sem fyrr í þessum mánuði gekk til liðs við rúmensku meistarana CFR Cluj eftir að hafa leikið í hálft annað ár með Astana í Kasakstan. Hann er þar með fyrsti Íslendingurinn sem spilar með rúmensku liði.

„Ég kom hingað 6. febrúar, fór í læknisskoðun og skrifaði undir tveimur dögum síðar. Ég var að koma úr fríi, hafði ekkert spilað síðan í nóvember og átti auk þess við smá meiðsli að stríða, en hef æft á fullu með liðinu að undanförnu. Mér líður vel og ég er í góðu standi.

Það er engin alvarleg pressa á mér að byrja strax að spila og lögð er áhersla á að ég fái góðan tíma til að koma mér inn í hlutina hérna. Þegar þú flytur í nýtt land og skiptir um lið breytist allt í þínu lífi og þeir vilja að ég komi hægt og bítandi inn í þetta. Ég er alveg sáttur við það þótt mér hafi vanalega gengið vel að aðlagast í nýju landi og nýju liði.

Næsti leikur er á mánudag, þeir vilja ekki að ég spili hann, æfi frekar vel með liðinu og spili mögulega minn fyrsta leik um aðra helgi.“

Munur á umgjörðinni

Rúnar kveðst finna talsverðan mun á Astana og CFR Cluj.

„Jú, þetta er mun stærra félag en Astana og deildin hérna er betri. CFR er félag sem hefur náð góðum úrslitum í Evrópukeppni, hefur orðið rúmenskur meistari síðustu þrjú ár og féll út úr Evrópudeildinni í vetur á vítaspyrnu á 90. mínútu í síðasta leik. Þetta er mjög sterkt lið og góður grunnur. Þegar nýr forseti og nýr eigandi tóku við félaginu 2017 var gefið hressilega í og hér er alltaf stefnt á að komast í Meistaradeildina, með Evrópudeildina til vara.

Munurinn á CFR Cluj og Astana er fyrst og fremst sá að öll umgjörðin hérna er miklu meiri. Í Astana var settur mikill peningur í leikmennina en ekki í neitt annað. Hérna er fjárfest vel í öllu í kringum liðið.“

Ítarlegt viðtal við Rúnar Má Sigurjónsson er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert