Staðfesta komu KR-ingsins

Jóhannes Kristinn Bjarnason er fjórði Íslendingurinn sem skrifar undir hjá …
Jóhannes Kristinn Bjarnason er fjórði Íslendingurinn sem skrifar undir hjá félaginu. Ljósmynd/@ifknorrkping

Jóhannes Kristinn Bjarnason er genginn til liðs við sænska knattspyrnufélagið Norrköping.

Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Jóhannes kemur til úrvalsdeildarfélagsins frá uppeldisfélagi sínu KR.

Bjarni Guðjónsson, faðir Jóhannesar, var á dögunum ráðinn þjálfari U19-ára liðs Norrköping en Jóhannes verður fjórði íslenski leikmaðurinn í herbúðum liðsins.

„Margir íslenskir leikmenn hafa náð mjög góðum árangri hjá félaginu,“ sagði Jóhannes í samtali við heimasíðu félagsins en hann er nýorðinn sextán ára gamall.

„Ég er tilbúinn að leggja mjög hart að mér til þess að ná sama árangri,“ bætti leikmaðurinn við.

Ísak Bergmann Jóhannesson, Oliver Stefánsson og Finnur Tómas Pálmason eru allir samningsbundnir Norrköping.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert