Sex mörk og endurkoma í stórleiknum

Leikmenn Bayern fagna í kvöld.
Leikmenn Bayern fagna í kvöld. AFP

Bayern München og Borussia Dortmund mættust í mögnuðum leik í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag í München. Urðu lokatölur 4:2, Bayern í vil. 

Dortmund byrjaði með miklum látum því Erling Braut Haaland var búinn að skora tvö mörk eftir aðeins níu mínútur. 

Bayern svaraði af krafti og pólski markahrókurinn Robert Lewandowski var búinn að jafna með tveimur mörkum áður en flautað var til hálfleiks. 

Var staðan 2:2 allt fram að 88. mínútu en þá skoraði Leon Goretzka þriðja mark Bayern. Lewandowski bætti svo við fjórða marki Evrópumeistaranna og þriðja marki sínu á lokamínútunni og þar við sat. 

Bayern er í toppsætinu með 55 stig og Leipzig í öðru sæti með 53 stig. Leipzig vann 3:0-sigur á Freiburg á útivelli fyrr í dag. Christopher Nkunku, Alexander Sörloth og Emil Forsberg gerðu mörkin. Dortmund er í sjötta sæti með 39 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert