Eins og einhver hefði verið myrtur

Florentino Pérez, forseti Real Madrid, hefur verið mikið í umræðunni …
Florentino Pérez, forseti Real Madrid, hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga. AFP

Florentino Pérez, forseti spænska íþróttafélagsins Real Madrid, fór mikinn í viðtali í spænska útvarpsþættinum El Larguero á úrvarpsstöðinni Cadena í kvöld.

Forsetinn ræddi þar nýja ofurdeild sem tólf af stærstu knattspyrnufélögum Evrópu ætluðu sér að stofna í sameiningu.

Það bendir hins vegar allt til þess að það verði ekkert úr ofurdeildinni þar sem níu af þeim tólf félögum sem áttu að koma að stofnun deildarinnar ákváðu að taka ekki þátt í keppninni vegna mikillar óánægju hjá stuðningsmönnum víðs vegar um Evrópu.

„Við höfum unnið mjög lengi að þessu verkefni og við fengum aldrei tækifæri til þess að útskýra okkar hugmyndir um það hvernig deildin yrði sett upp,“ sagði Pérez í þættinum.

„Ég er bæði dapur og vonsvikinn með þróun mála. Nú er margra ára vinna farin í vaskinn sem sneri að því að gera fótboltann arðbærari. Það sjá það allir að núverandi form Meistaradeildarinnar er úrelt og hún verður fyrst áhugaverð þegar komið er í átta liða úrslit keppninnar.

Félögin sem komu að stofnun ofurdeildarinnar töpuðu um 600 milljónum evra bara á síðasta ári. Við viljum taka þátt í keppni þar sem við spilum reglulega hvert gegn öðru. Við mætumst venjulega í febrúar eða mars en það væri sniðugra að geta byrjað að spila strax í upphafi tímabilsins.

Ég hef aldrei orðið vitni að jafn mikilli neikvæðni á mínum ferli í knattspyrnuheiminum eins og þegar við tilkynntum stofnun ofurdeildarinnar. Ég fékk sendar hótanir og fólk hreytti ónotum í mig. Það var eins og einhver hefði verið myrtur, þannig voru viðbrögðin.

Það fór af stað einhver herferð um að við ætluðum okkur að yfirgefa deildarkeppnirnar heima fyrir sem var ekki rétt. Þetta snýst einfaldlega um hagsmunabaráttu og UEFA tapar mest ef af þessu verður, þess vegna lögðu þeir allt kapp á að deildin yrði ekki að veruleika,“ bætti Pérez við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert