Þriggja liða kapphlaup á Spáni

Lionel Messi skoraði tvö mörk fyrir Barcelona í kvöld.
Lionel Messi skoraði tvö mörk fyrir Barcelona í kvöld. AFP

Lionel Messi skoraði tvö mörk og lagði upp eitt er Barcelona vann 5:2-heimasigur á Getafe í spænsku efstu deildinni í knattspyrnu í kvöld. Mikil spenna er í toppbaráttunni þegar sex umferðir eru óleiknar.

Messi kom heimamönnum yfir strax á áttundu mínútu en Clément Lenglet skoraði sjálfsmark fjórum mínútum síðar og staðan því 1:1. Argentínumaðurinn bætti við öðru marki sínu á 33. mínútu skömmu eftir að gestirnir skoruðu sjálfir sjálfsmark og var Barcelona 3:1 yfir í hálfleik.

Enes Unai minnkaði þá muninn fyrir Getafe úr vítaspyrnu um stundarfjórðungi fyrir leikslok en Ronald Araújo kom Börsungum í 4:2 þökk sé stoðsendingu Messis áður en Antoine Griezmann skoraði fimmta mark heimamanna úr vítaspyrnu.

Atlético Madríd vann sinn leik fyrr í kvöld, 2:0 gegn Huesca, og er á toppi deildarinnar með 73 stig eftir 32 leiki. Real Madríd er í öðru sæti með 70 stig og Barcelona í því þriðja með 68 en Börsungar eiga leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert