Óvænt jafntefli heimsmeistaranna

Attila Fiola fagnar marki sínu í dag.
Attila Fiola fagnar marki sínu í dag. AFP

Ungverjaland og heimsmeistarar Frakklands gerðu ansi óvænt 1:1 jafntefli í annarri umferð F-riðils Evrópumótsins í knattspyrnu á Puskás-vellinum í Búdapest í dag.

Eins og við var að búast voru Frakkar ívið sterkari og fengu tvöfalt dauðafæri eftir 14 mínútna leik. Fyrst átti Karim Benzema gott skot utarlega úr vítateignum sem Péter Gulácsi í marki Ungverja varði út í teiginn, þar sem Antoine Griezmann fylgdi á eftir í enn betra færi en Gulácsi varði aftur.

Þremur mínútum síðar fékk Kylian Mbappé frábæra fyrirgjöf frá Lucas Digne en skalli Mbappé fyrir miðjum teignum fór fram hjá.

Eftir rúmlega hálftíma leik átti Griezmann frábæra stungusendingu á Mbappé, sem gerði sér lítið fyrir og gaf boltann glæsilega á lofti með hælnum beint fyrir lappir Benzema sem var einn á auðum sjó en „slæsaði“ boltann fram hjá úr besta færi leiksins.

Skömmu síðari fór Mbappé illa með varnarmenn Ungverja í teignum, náði skotinu en það fór rétt fram hjá markinu.

Á annarri mínútu uppbótartíma kom svo fyrsta markið þegar Ungverjar skoruðu þvert gegn gangi leiksins.

Þá barst löng sending yfir á vinstri kantinn þar sem Attila Fiola kom boltanum snögglega á Roland Sallai sem skallaði boltann inn fyrir á Fiola sem lék með boltann inn á teig og skoraði af öryggi með skoti niður í nærhornið.

Staðan því 0:1, Ungverjum í vil, í hálfleik.

Ef þeir lágu til baka í fyrri hálfleik þá voru Ungverjar nánast komnir ofan í eigið mark í þeim síðari.

Frakkar héldu áfram að pressa og á 59. mínútu átti Ousmane Dembélé, sem var nýkominn inn á sem varamaður, þrumuskot í stöngina eftir laglegan sprett.

Á 66. mínútu kom loks jöfnunarmarkið. Mbappé átti mjög góðan sprett inn í teiginn, kom boltanum þvert fyrir markið þar sem Willi Orbán náði að slæma tánni í boltann en afar stutt og kom Griezmann á ferðinni og skoraði af stuttu færi, 1:1.

Eftir markið hefði mátt búast við Frökkum fílefldum en svo var ekki, að minnsta kosti um stund.

Þeir fengu nefnilega ekki færi aftur fyrr en á 82. mínútu, og það var enn eitt dauðafærið. Mbappé komst þá einn gegn Gulácsi vinstra megin í teignum, þrumaði að marki en skotið fór beint á ungverska markvörðinn.

Áfram héldu Frakkar að pressa en allt kom fyrir ekki og 1:1 jafntefli reyndist lokaniðurstaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert