Hollendingurinn tryggði Barcelona stig

Memphis Depay fagnar jöfnunarmarkinu.
Memphis Depay fagnar jöfnunarmarkinu. AFP

Barcelona tapaði í kvöld sínum fyrstu stigum í spænsku 1. deildinni í fótbolta eftir að Lionel Messi yfirgaf félagið og samdi við París SG.

Barcelona mátti sætta sig við 1:1-jafntefli við Athletic Bilbao á útivelli. Inigo Martínez kom heimamönnum yfir á 50. mínútu og stundarfjórðungi síðar jafnaði Memphis Depay og þar við sat.

Eric García, sem kom til Barcelona frá Manchester City fyrir leiktíðina, fékk beint rautt spjald í blálokin fyrir að stöðva Nico Williams er hann var að sleppa einn í gegn.

Barcelona vann Real Sociedad í fyrstu umferðinni og er því með fjögur stig eftir tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert