England og Spánn röðuðu inn mörkum – Dramatík hjá Frökkum

Ellen White skoraði tvö.
Ellen White skoraði tvö. Ljósmynd/Enska knattspyrnusambandið

England hóf undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta með látum því liðið vann 10:0-útisigur á Lúxemborg í fyrsta leik sínum í dag.

Ellen White, Alex Greenwood og Mille Bright skoruðu allar tvö mörk fyrir England, en Bright og Greenwood eru miðverðir.

Esther Gonzalez og Amaiur Sarriegi skoruðu tvö mörk hvor fyrir Spánn sem vann auðveldan 7:0-útisigur á Ungverjalandi. Spánn er með fullt hús stiga í sínum riðli, eins og Skotland. Skoska liðið vann það færeyska á heimavelli í kvöld, 7:1. Cloe Arthur skoraði tvö mörk fyrir Skotland.

María Thorisdóttir, dóttir Þóris Hergeirssonar landsliðsþjálfara norska kvennaliðsins í handbolta, lék allan leikinn með Noregi sem vann Kósóvó á útivelli, 3:0.

Frakkland lenti óvænt í miklum vandræðum með Slóveníu á útivelli. Lara Prasnikar kom Slóveníu yfir á 20. mínútu en átta mínútum síðar jafnaði Marie-Antoinette Katoto metin. Hún var svo aftur á ferðinni á 60. mínútu til að koma Frökkum yfir.

Mateja Zver, fyrrverandi leikmaður Þórs/KA, jafnaði fyrir Slóveníu á 89. mínútu. Það dugði hinsvegar ekki til því Amel Majri skoraði sigurmark Frakklands í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert