Einn sá eftirsóttasti hafnaði nýju samningstilboði

Dusan Vlahovic er öflugur markaskorari.
Dusan Vlahovic er öflugur markaskorari. AFP

Serbneski framherjinn Dusan Vlahovic, leikmaður ítalska knattpyrnufélagsins Fiorentina, hefur hafnað tilboði um nýjan samning og er því væntanlega á förum frá félaginu á næsta ári.

Núverandi samningur hins 21 árs gamla Vlahovic rennur út sumarið 2023 og viðurkennir forseti Fiorentina, Rocco Commisso, að félagið muni þurfa að finna farsæla lausn á málum hins mikla markaskorara, sem þýðir að selja þurfi hann á næsta ári svo hann fari ekki á frjálsri sölu á þarnæsta ári.

Í yfirlýsingu á heimasíðu Fiorentina skrifar Commisso að Vlahovic hafi hafnað samningstilboði félagsins, sem hefði gert hann að launahæsta leikmanni í sögu þess.

Vlahovic fór á kostum í ítölsku A-deildinni á síðasta tímabili þegar hann skoraði 21 mark í 37 deildarleikjum. Fjöldi stórliða sýndu honum af þeim sökum áhuga síðasta sumar en Vlahovic hélt þó kyrru fyrir í Flórens.

Hann hefur byrjað þetta tímabil af álíka krafti þar sem hann er kominn með fjögur mörk í sjö deildarleikjum, auk tveggja marka í einum bikarleik.

Því er ljóst að ekki mun áhuginn á Vlahovic minnka haldi hann uppteknum hætti í markaskorun sinni og ekki síður með tilliti til samningsstöðu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert