Sigurganga Ítala stöðvuð á heimavelli

Ferran Torres horfir á eftir boltanum í mark Ítala í …
Ferran Torres horfir á eftir boltanum í mark Ítala í kvöld þegar hann skorar annað tveggja marka sinna. AFP

Evrópumeistarar Ítala í knattspyrnu máttu í kvöld þola sinn fyrsta ósigur í 38 landsleikjum þegar þeir töpuðu á heimavelli sínum í Mílanó fyrir Spánverjum, 2:1, í undanúrslitaleik liðanna í Þjóðadeild Evrópu.

Ferran Torres kom Spánverjum yfir á 17. mínútu eftir sendingu frá Mikel Oyarzabal. Rétt  fyrir hlé urðu Ítalir fyrir áfalli þegar Leonardo Bonucci fékk sitt annað gula spjald með stuttu millibili og var rekinn af velli.

Þessu fylgdu Spánverjar vel eftir því Torres skoraði sitt annað mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks, aftur eftir sendingu frá Oyarzabal, 2:0. Varamaðurinn Lorenzo Pellegrini náði að minnka muninn fyrir tíu Ítali í 2:1 á 83. mínútu.

Spánverjar leika því úrslitaleik keppninnar um helgina gegn annaðhvort Belgum eða Frökkum sem mætast í hinum undanúrslitaleiknum í Tórínó annað kvöld.

Ítalir eiga hinsvegar heimsmet landsleikja í leikjum án taps en það stendur eftir í 37 leikjum og verður ekki bætt frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert