Skrýtið að fá blóm fyrir að vera dauður í fimm mínútur

Christian Eriksen hneig niður í fyrsta leik Dana á EM …
Christian Eriksen hneig niður í fyrsta leik Dana á EM í Kaupmannahöfn. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen mætti í dag í sitt fyrsta viðtal eftir að hann fór í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands í úrslitakeppni Evrópumótsins á Parken í Kaupmannahöfn síðasta sumar.

Brot úr viðtali við Eriksen hefur verið birt á vef Danmarks Radio og Eriksen birti það á Twitter í dag.

„Á ríkissjúkrahúsinu var komið aftur og aftur til mín og sagt að það væru komin meiri og meiri blóm. Það var svolítið skrýtið að fá blóm fyrir að vera dauður í fimm mínútur! Þetta var mjög sérstakt, mjög sérstakt, en fallegt að fólk vildi senda mér svona margar batakveðjur," sagði Eriksen m.a. í viðtalinu.

Eriksen hefur æft sjálfur af fullum krafti í Sviss að undanförnu og umboðsmaður hans sagði á dögunum að það kynni að vera stutt í að hann semdi við félag á nýjan leik. Samningi Eriksens við Inter Mílanó var rift en hann má ekki spila á Ítalíu samkvæmt reglum þar eftir að hafa fengið ígræddan gangráð.

Brot úr viðtalinu má sjá hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert