Stefnir á að spila á HM í Katar

Christian Eriksen í leik með Inter Mílanó síðasta vetur.
Christian Eriksen í leik með Inter Mílanó síðasta vetur. AFP

Christian Eriksen segir að hans markmið sé að fara með danska landsliðinu á heimsmeistaramótið í Katar í lok þessa árs en hann er ekki farinn að spila ennþá eftir að hafa farið í hjartastopp í júní á síðasta ári.

Fyrsta viðtalið við Eriksen eftir þetta atvik verður birt hjá Danmarks Radio á fimmtudaginn kemur en DR er byrjað að birta myndskeið úr því á vef sínum.

Þar segir hann m.a. að hjartað hafi ekkert truflað sig frá því það stoppaði í leiknum gegn Finnum á EM og að læknarnir hafi sagt að ekkert væri því til fyrirstöðu að hann héldi áfram ferli sínum sem fótboltamaður. Hann kveðst ekki í vafa um að það sé rétt ákvörðun.

„Mitt takmark er að fara á HM í Katar. Það hefur verið efst í mínum huga allan tímann. Hvort ég verði valinn í liðið er allt annað mál, hvort ég nái að spila aftur fótbolta er annað mál. En hugsunin og draumurinn um að snúa aftur...," sagði Eriksen.

Umboðsmaður hans sagði í dag að Eriksen væri mjög til í að snúa aftur til Englands þar sem hann átti góðan tíma með Tottenham en hann hefur m.a. verið orðaður við Newcastle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert