Lewandowski og Putellas valin best

Robert Lewandowski og Alexia Putellas voru valin best á verðlaunaafhendingu …
Robert Lewandowski og Alexia Putellas voru valin best á verðlaunaafhendingu FIFA í kvöld. AFP

Robert Lewandowski, leikmaður Bayern München í Þýskalandi, og Alexia Putellas, leikmaður Barcelona á Spáni, voru útnefnd knattspyrnufólk ársins 2021 á verðlaunaafhendingu FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, sem fram fór í Zürich í kvöld.

Lewandowski varð Þýskalandsmeistari með Bayern München á síðustu leiktíð en hann skoraði 41 mark í þýsku 1. deildinni á síðasta keppnistímabili. Þá varð Putellas Spánar- og Evrópumeistari með liði Barcelona en Putellas er lykilmaður í liði Barcelona.

Eduard Mendy, markvörður Chelsea, var valin markvörður ársins í karlaflokki og Christiane Endler, markvörður Lyon í Frakklandi, var valin markvörður ársins í kvennaflokki.

Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, var valinn þjálfari ársins 2021 í karlaflokki en hann gerði Chelsea að Evrópumeisturum á nýliðnu ári. Á sama tíma var Emma Hayes, þjálfari kvennaliðs Chelsea, valin besti þjálfarinn í kvennaflokki en hún gerði Chelsea að Englandsmeisturum, bikarmeisturum og deildabikarmeisturum á síðustu leiktíð.

Þá voru þeir Gianluigi Donnarumma, David Alaba, Ruben Dias, Leonado Bonucci, Jorginho, N'Golo Kanté, Kevin De Bruyne, Cristiando Ronaldo, Erling Braut Haaland, Robert Lewandowski, og Lionel Messi valdir í lið ársins hjá FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert