Milos: „Svolítið svekkjandi“

Milos Milojevic, þjálfari Malmö.
Milos Milojevic, þjálfari Malmö. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Milos Milojevic, þjálfari Svíþjóðarmeistara Malmö, var svekktur eftir að liðið vann Íslandsmeistara Víkings úr Reykjavík 3:2 í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í Malmö í kvöld.

Helgi Guðjónsson minnkaði muninn fyrir Víking í uppbótartíma og sá til þess að Íslandsmeistararnir eru enn inni einvíginu fyrir síðari leikinn eftir eina viku.

„Við vorum betra liðið og áttum möguleika á því að skora mörk númer þrjú, fjögur og fimm.

Þetta er svolítið svekkjandi en þá er bara að fara til Íslands, vinna leikinn þar og fara áfram í næstu umferð,“ sagði Milos í samtali við Malmö TV eftir leik.

Milos er fyrrverandi þjálfari og leikmaður Víkings.

„Það var jákvætt að við sköpuðum okkur svona mörg færi en við þurfum eitthvað að vinna í nýtingunni.

Ég er samt ánægður með að við unnum leikinn, sigur er sigur. Nú bíður hörkuleikur á Íslandi,“ bætti hann við.

„Akkúrat núna líður okkur eins og við höfum tapað leiknum. En við verðum að muna að við vorum að gera margt vel, við áttum mörg færi og tvö skot í tréverkið.

Þannig að við vorum nálægt því að ná í mjög góð úrslit. Þetta er mjög óheppilegt en við verðum að taka það góða með okkur í næsta leik. Við unnum leikinn,“ sagði Anders Christiansen, fyrirliði liðsins, við Malmö TV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert