Emil áfram á Ítalíu

Emil Hallfreðsson verður áfram í herbúðum Virtus Verona.
Emil Hallfreðsson verður áfram í herbúðum Virtus Verona. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Emil Hallfreðsson hefur framlengt samning sinn við ítalska C-deildarfélagið Virtus Verona um eitt ár.

Emil, sem varð 38 ára í síðasta mánuði, kom til Verona-félagsins frá Padova fyrir síðustu leiktíð. Hann hefur leikið á Ítalíu frá árinu 2007 er hann gekk í raðir Reggina frá Lyn í Noregi.

Síðan þá hefur hann leikið með Hellas Verona, Udinese, Frosinone, Padova og loks Virtus Verona.

Liðið endaði í 13. sæti af 18 liðum í C-deildinni á síðustu leiktíð og var aðeins einu stigi frá tíunda sæti, sem gefur sæti í umspili um sæti í B-deildinni.

Emil hefur leikið 428 deildaleiki á ferlinum og aðeins þrír íslenskir knattspyrnumenn sem enn eru að spila eiga fleiri leiki að baki, þeir Aron Einar Gunnarsson, Pálmi Rafn Pálmason og Ari Freyr Skúlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert