Leikmaður í dönsku úrvalsdeildinni kærður fyrir nauðgun

Leikmaður hjá dönsku úrvalsdeildarfélagi hefur verið úrskurðaður í tíu daga gæsluvarðhald eftir að hafa verið kærður fyrir nauðgun.

TV2 greinir frá.

Dómari við héraðsdóm Kaupmannahafnar úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald síðastliðinn laugardag og tilkynnti um leið að ekki yrði greint opinberlega frá nafni mannsins.

Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók manninn eftir að kæra var lögð fram vegna meintrar nauðgunar á hótelherbergi á Imperial-hótelinu í Kaupmannahöfn í apríl síðastliðnum.

Samkvæmt kærunni var fórnarlambið þvingað til þess að veita ákærða munnmök og samþykki fyrir samræði því ekki til staðar. Hafi fórnarlambið reynt að veita mótspyrnu og sagt manninum að hætta nokkrum sinnum.

Tenna Tabelsteen, lögfræðingur mannsins, segir að maðurinn neiti sök.

Lögreglan hefur manninn einnig grunaðan um að hafa brotið gegn blygðunarkennd tveggja kvenna til viðbótar í júlí og ágúst á þessu ári.

Í Danmörku getur refsing fyrir nauðgun numið fangelsi allt að átta árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert