Rætt um töfralækna á fundi franska landsliðsins

Didier Deschamps á fréttamannafundinum í dag þar sem hann svaraði …
Didier Deschamps á fréttamannafundinum í dag þar sem hann svaraði m.a. spurningum um töfralækna. AFP/Franck Fife

Umræða um afríska töfralækna kom upp á fréttamannafundi franska landsliðsins í knattspyrnu í dag, í kjölfarið á fullyrðingum um að Paul Pogba hefði beðið slíkan lækni um að leggja bölvun á liðsfélaga sinn, Kylian Mbappé.

Eins og áður hefur komið fram sakaði Mathias Pogba bróður sinn um þetta en hann reyndi ásamt frönsku glæpagengi að kúga fé út úr honum.

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, var á fundinum spurður um hvort hann hefði hugsað sér að nýta töfralækna í þágu liðsins.

„Við búum á sömu plánetunni og þetta hefur verið til staðar í óralangan tíma. Allir hafa rétt á að trúa því sem þeir vilja. Þetta truflar mig ekki og ég dæmi engan. Ef þetta hjálpar einhverjum andlega eða á annan hátt, þá er þetta ekkert nýtt. Töfralækningar þekkjast innan íþróttaheimsins og utan hans," svaraði Deschamps á mjög diplómatískan hátt.

Paul Pogba er ekki í franska hópnum sem Deschamps tilkynnti í dag en hann glímir við meiðsli um þessar mundir. Frakkar eiga fyrir höndum leiki við Austurríki og Danmörku í Þjóðadeildinni og auk Pogba vantar í lið þeirra öfluga leikmenn eins og Lucas Hernandez, N'Golo Kanté, Presnel Kimpembe, Kingsley Coman og Karim Benzema.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert