Tvö ár sem ég fæ aldrei aftur

Reinier í leik með Girona um þarsíðustu helgi.
Reinier í leik með Girona um þarsíðustu helgi. AFP/Cristina Quicler

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Reinier, sem er á mála hjá spænska stórveldinu Real Madríd, er verulega ósáttur við tveggja ára lánsdvöl sína hjá Borussia Dortmund þar sem hann fékk lítið að spila.

Reinier, sem er nú á láni hjá Girona, nýliðum í spænsku 1. deildinni, segir árin tvö hjá Dortmund hafa verið tímasóun.

„Þetta voru tvö ár af ferli mínum sem ég fæ aldrei aftur. Á þessum tveimur árum var upplifun mín af fótbolta ekki sérstaklega góð. Verandi 18 og 19 ára gamall gekk ég í gegnum erfitt tímabil.

Ég fór frá því að spila reglulega með Flamengo en skyndilega var ég ekki lengur að spila og hafði ekki á tilfinningunni að mér væri unnt að hjálpa liðinu,“ sagði hann í brasilíska sjónvarpsþættinum Globo Esporte.

Reinier, sem er enn aðeins tvítugur, lék alls 39 leiki á tveimur tímabilum með Dortmund og kom oftast inn á sem varamaður í þeim.

„Það versta var að ég gat ekki þróast sem knattspyrnumaður. Fólk, ég nefni engin nöfn, sagði að ég stæði mig mjög vel á æfingum en samt var ég ekki að spila. Ég skil það ekki,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert