Aldrei horft aftur á þennan leik!

​Andrea Pirlo tekur sig vel út í nýju hlutverki á …
​Andrea Pirlo tekur sig vel út í nýju hlutverki á hliðarlínunni. Hér er hann að stjórna leik hjá Juventus vorið 2021. AFP/Alberto Lingria

„Ég hef aldrei horft aftur á þennan leik og hef enga löngun til þess,“ segir Andrea Pirlo í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins en hann var í liði AC Milan sem tapaði einum frægasta úrslitaleik sögunnar, gegn Liverpool í Meistaradeildinni vorið 2005.

Í dag er Pirlo aftur kominn til Istanbul, borgarinnar þar sem hann var særður hjartasári sem leikmaður. Nú sem knattspyrnustjóri Fatih Karagümrük. Hann vann svo til alla titla sem í boði voru en kvöld eitt fór allt í handaskolum.

25. maí 2005 er einn stærsti dagur í sögu Liverpool. Þveröfugt á við um AC Milan. Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar, sem fram fór þann dag, var vægast sagt leikur tveggja hálfleikja. AC Milan var 3:0 yfir í leikhléi en Liverpool jafnaði í seinni hálfleik og vann á endanum með hádramatískum hætti í vítakeppni.

Pirlo var mjög niðurdreginn á eftir og íhugaði meira að segja að leggja skóna á hilluna, án þess þó að mikil alvara væri á bak við það. Þegar hann hugsar til baka var þetta eitt af sárafáum skiptum þar sem ekki varð við neitt ráðið og Pirlo gat ekki haft nein áhrif á handritið.

Ekkert hægt að gera

„Því miður var ekkert hægt að gera í þessum leik. Við skiljum ekki enn hvað gerðist. Að mínu viti áttum við einn besta fyrri hálfleik sem um getur í úrslitaleik, ekki bara í Evrópukeppni, heldur yfirhöfuð. Fórum á kostum. Við fengum líka færi til að komast í 4:0 í byrjun seinni hálfleiks. Síðan skoruðu þeir þrjú mörk á sjö mínútum og við vorum ráðþrota.“

Pirlo man eftir fleiri færum undir lok leiksins en ekkert féll lengur með þeim. „Við fengum færi til að skora sigurmarkið en þegar leikur á að fara á tiltekinn veg er vonlaust að breyta um kúrs. Þetta var stórfurðulegur leikur og við erum enn að reyna að glöggva okkur á því hvað fór úrskeiðis.“

Steven Gerard fyrirliði og Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, með Evrópubikarinn …
Steven Gerard fyrirliði og Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, með Evrópubikarinn eyrnastóra vorið 2005. AFP/Alastair Grant


Pirlo segir ekkert vanmat hafa átt sér stað í seinni hálfleiknum. „Nálgunin var sú sama og í fyrri hálfleik, við vissum að leikurinn var ekki búinn, einkum þar sem við vorum að spila við enskt lið með fjölda stuðningsmanna í stúkunni og andann sem Liverpool hefur alltaf búið að. Við komum út, lékum vel en enginn hefði getað séð niðurstöðuna fyrir,“ segir Pirlo sem brenndi af í vítakeppninni. 

Komu fram hefndum

Tveimur árum síðar fengu Pirlo og félagar í Milan tækifæri til að koma fram hefndum, þegar þeir mættu Liverpool aftur í úrslitaleiknum.

„Það var kærkomið tækifæri til að sýna og sanna að við værum þess umkomnir að vinna þessa keppni, eftir tapið í Istanbul.“

Andrea Pirlo ásamt Kaka, félaga sínum hjá Milan, árið 2006.
Andrea Pirlo ásamt Kaka, félaga sínum hjá Milan, árið 2006. Reuters/Alessandro Garofalo


Pirlo var í lykilhlutverki í þeim leik og aukaspyrna hans, sem breytti um stefnu á leið í markið, átti þátt í að tryggja Milan 2:1-sigur. Annar sigur hans í Meistaradeildinni afmáði þó ekki minningarnar um tapið tveimur árum áður. „Nei, nei, minningin um þann leik hvarf ekki út af því að við töpuðum svo illa. Okkur tókst vissulega að koma fram hefndum en tilfinningin sem fylgdi tapinu í fyrri leiknum mun vara að eilífu.“

Ítarlega er rætt við Pirlo í Sunnudagsblaðinu. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert