Lyon svarar gagnrýni Söru

Sara Björk Gunnarsdóttir lyftir Evrópubikarnum eftir sigur Lyon í Meistaradeildinni …
Sara Björk Gunnarsdóttir lyftir Evrópubikarnum eftir sigur Lyon í Meistaradeildinni vorið 2022. AFP/Marco Bertorello

Franska knattspyrnufélagið Lyon hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna frásagnar Söru Bjarkar Gunnarsdóttur í dag af samskiptum hennar við félagið á meðan hún var ófrísk árið 2021.

Þar kom m.a. fram að Lyon hefði ekki greitt Söru laun á meðan hún dvaldi á Íslandi á meðgöngunni. Sara fékk launin síðar greidd eftir að hafa farið með málið til FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Í tilkynningu Lyon segir:

„Olympique Lyonnais hefur alltaf verið í fararbroddi í knattspyrnu kvenna og hefur stutt sína liðsmenn á öllum sviðum lífsins.

Við höfum alltaf virt frönsk lög, sem okkur hefur stundum þótt of ströng í svona málum. Þess vegna höfum við ávallt barist fyrir aukinni vernd leikmanna á þessum sviðum.

Við höfum gert allt sem við höfum getað til að styðja Söru Björk Gunnarsdóttur í kringum hennar barnsburð, sem og endurkomu hennar á hæsta getustigi.

Samkvæmt hennar ósk samþykktum við að leyfa henni að fara í fæðingarfrí á Íslandi, heimalandi sínu. Þegar hún sneri aftur til Frakklands, eftir að sonur hennar fæddist, gerðum við allt sem í okkar valdi stóð til að koma henni aftur í sem best líkamlegt form, gera henni nýtt líf sem móður sem allra best, sem og að hún gæti hafið keppni á ný, með aukinni aðstoð, eins og við gerðum síðar með Amel Majri. 

Þetta málefni stendur okkur afar nærri og við erum stolt að hafa hjálpað henni í gegnum sína óléttu og allt þar til hún sneri aftur á völlinn í leik gegn Soyaux, þar sem við leyfðum henni líka að ferðast með barnið sitt og barnfóstru.

Fyrir nokkrum mánuðum lagði FIFA í fyrsta skipti fram reglugerð varðandi leikmenn sem ala börn á meðan þeirra ferill st endur yfir. Við erum afar ánægð með það.

Nú gagnrýnir FIFA okkur fyrir að hafa ekki boðið Söru Björk Gunnarsdóttur nýjan samning á meðan hún var í veikindafríi og síðan í fæðingarorlofi, á sama tíma og frönsk lög heimila okkur það ekki, og leikmaðurinn hafði lagt áherslu á það við okkur að fá að dvelja heima á Íslandi, sem við samþykktum.  Við erum stolt af því að hafa haft Söru Björk Gunnarsdóttur í lelikmannahópi Olympique Lyonnais. Okkar leiðir skildi aðeins af íþróttalegum ástæðum.

Ef hún vill aðstoða okkur við að ná fram betri lögum í Frakklandi, þá vildum við gjarna hafa hana með í baráttu okkar, ásamt Amel Majri, um að allt íþróttafólk geti alið börn og snúið aftur til keppni að því loknu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert