Rekinn eftir afleitt gengi

Hoffenheim rak André Breitenreiter í dag.
Hoffenheim rak André Breitenreiter í dag. AFP/Ronny Hartmann

Þýska knattspyrnufélagið Hoffenheim hefur vikið Þjóðverjanum André Breitenreiter úr starfi knattspyrnustjóra karlaliðsins eftir bölvanlegt gengi að undanförnu.

Breitenreiter var ráðinn stjóri síðastliðið sumar og entist því aðeins um sjö mánuði í starfi.

Liðið byrjaði vel en síga fór á ógæfuhliðina í október síðastliðnum þegar Hoffenheim vann aðeins einn leik af fimm í þýsku 1. deildinni, og kom sá sigur gegn botnliði Schalke.

Síðan þá hafa hlutirnir ekkert batnað og er síðasti deildarsigur liðsins enn sá gegn Schalke þann 14. október.

Í síðustu sjö deildarleikjum hefur liðið tapað sex og gert eitt jafntefli.

Hoffenheim, sem er þremur stigum fyrir ofan fallsæti, leitar því nú að nýjum knattspyrnustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert