Aron skoraði í bikarleik

Aron Einar Gunnarsson í landsleik gegn Sádi-Arabíu síðastliðið haust.
Aron Einar Gunnarsson í landsleik gegn Sádi-Arabíu síðastliðið haust. Ljósmynd/KSÍ

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, skoraði fyrra mark Al-Arabi í 3:0-sigri liðsins á Shamal í 16-liða úrslitum Emírs-bikarsins í Katar í dag.

Aron Einar, sem lék sem varnartengiliður en ekki miðvörður eins og hann gerir jafnan hjá Al-Arabi, skoraði mark sitt eftir tæplega hálftíma leik.

Fimm mínútum fyrir leikslok tvöfaldaði Omar Al-Somah forystuna og á fyrstu mínútu uppbótartíma skoraði hann annað mark sitt og þriðja mark Al-Arabi.

Þar við sat og Al-Arabi er því búið að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.

Aron Einar lék fyrstu 86 mínúturnar fyrir liðið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert