Fjórir handteknir eftir að lögregluþjónn særðist

Lögregluþjónar þurftu að hafa afskipti af stuðningsmönnum Real Betis á …
Lögregluþjónar þurftu að hafa afskipti af stuðningsmönnum Real Betis á Old Trafford í gærkvöldi. AFP/Darren Staples

Fjórir stuðningsmenn spænska knattspyrnufélagsins Real Betis voru handteknir á meðan leik liðsins gegn Manchester United í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla stóð í gærkvöldi.

Lögregluþjónn sem var við störf á leiknum meiddist eftir að stuðningsmenn Betis fleygðu blysum úr áhorfendastúkunni á Old Trafford í Manchester.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni í Manchester voru mennirnir fjórir handsamaðir fyrir ofbeldishegðun, líkamsárás, vörslu blys inni á vellinum og vörslu fíkniefna.

Tveir þeirra eru enn í haldi lögreglu en hinum tveimur hefur verið sleppt.

Rannsókn á málinu stendur þó yfir þar sem lögreglan biðlar til stuðningsmanna bæði Man. United og Real Betis að hafa samband búi þeir yfir einhverjum frekari upplýsingum um þá stuðningsmenn Betis sem sýndu af sér óásættanlega hegðun á Old Trafford í gærkvöldi, svo unnt sé að sækja þá til saka og banna frá komu á knattspyrnuvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert