Bauluðu þegar Messi spilaði ekki (myndskeið)

Ósáttur áhorfandi lætur í sér heyra í gær.
Ósáttur áhorfandi lætur í sér heyra í gær. AFP/Peter Parks

Áhorfendur í Hong Kong sem keyptu miða á vináttuleik úrvalsliðs Hong Kong og bandaríska liðsins Inter Miami voru ekki á eitt sáttir við að stærsta stjarna síðarnefnda liðsins, Lionel Messi, hafi ekkert komið við sögu í leiknum í gær.

Messi sat allan tímann á varamannabekknum enda ekki leikfær. Argentínski snillingurinn er að glíma við meiðsli aftan á læri og gat því ekki tekið þátt í leiknum.

Lionel Messi kom ekkert við sögu.
Lionel Messi kom ekkert við sögu. AFP/Peter Parks

Flestir af þeim 40.000 áhorfendum sem lögðu leið sína á leikinn eru taldir hafa verið þangað komnir til þess að bera Messi augum og bauluðu hástöfum auk þess að kalla eftir endurgreiðslu þegar ljóst varð að hann kæmi ekkert við sögu.

Önnur stjarna liðsins, Luis Suárez, gat ekki heldur tekið þátt í leiknum vegna hnémeiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert