Messi ber hönd fyrir höfuð sér

Lionel Messi á fréttamannafundinum í dag.
Lionel Messi á fréttamannafundinum í dag. AFP/Philip Fong

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi hefur tjáð sig um ósætti áhorfenda á leik úrvalsliðs Hong Kong og Inter Miami, félagsliðs hans, í vináttuleik í Hong Kong um síðustu helgi.

Messi tók engan þátt í leiknum vegna meiðsla aftan í læri. Við það voru áhorfendur í Hong Kong ekki sáttir og bauluðu hástöfum til þess að láta ósætti sitt í ljós.

Stjórnvöld í Hong Kong hafa greint frá því að Messi hafi verið samningsbundinn til þess að spila að minnsta kosti einn hálfleik.

„Ég vil alltaf spila, sérstaklega í þessum leikjum þar sem við ferðumst langt og fólk vill sjá leikina okkar. Því miður gerist þetta í fótbolta.

Í hverjum einasta leik er sá möguleiki fyrir hendi að maður geti ekki spilað vegna meiðsla. Það kom fyrir mig. Ég vona að við getum snúið aftur og spilað í Hong Kong,“ sagði Messi á fréttamannafundi í Tókýó í Japan í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert